Erlent

Danir sagðir brjóta norrænar reglur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Forsætisráðherrar Norðurlandanna. Jens Stoltenberg frá Noregi, Mari Kiviniemi frá Finnlandi, Lars Løkke Rasmussen frá Danmörku, Jóhanna Sigurðardóttir og Fredrik Reinfeldt frá Svíþjóð á sameiginlegum blaðamannafundi í gær.
Fréttablaðið/GVA
Forsætisráðherrar Norðurlandanna. Jens Stoltenberg frá Noregi, Mari Kiviniemi frá Finnlandi, Lars Løkke Rasmussen frá Danmörku, Jóhanna Sigurðardóttir og Fredrik Reinfeldt frá Svíþjóð á sameiginlegum blaðamannafundi í gær. Fréttablaðið/GVA
Norðurlönd Eitt helsta hitamálið á Norðurlandaráðsþingi í ár virðist ætla að snúast um þá stefnu danskra stjórnvalda að vísa úr landi norrænum ríkisborgurum sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda.

Kirsten Ketscher, lagaprófessor við háskólann í Kaupmannahöfn, heldur því fram að með þessu brjóti dönsk stjórnvöld viðurkennda sáttmála, bæði á vettvangi Norðurlandanna og á vettvangi Evrópusambandsins.

Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs, tók undir þessa gagnrýni í ávarpi sínu við opnun Norðurlandaráðsþings á Grand Hóteli í gær. Hann sagði það grafa undan Norðurlandasamstarfinu ef norrænu ríkin túlka norræna sáttmála á ólíka vegu.

Hann sagði það vekja sérstaka athygli að Birthe Rønn Hornbech, samþættingarráðherra Dana, skuli neita að gera grein fyrir þessari stefnu danskra stjórnvalda.

Þema Norðurlandaráðsþings í ár er grænn vöxtur sem leið út úr kreppunni. Flokkahópur vinstri grænna í Norðurlandaráði notaði tilefnið til að koma á framfæri þeirri afstöðu sinni að skilgreina þurfi eignarhald á náttúruauðlindum í löggjöf og stjórnarskrám norrænu ríkjanna. Þingmenn frá Færeyjum og Grænlandi segja pólitíska samstöðu um þetta í þeirra löndum.

Á sameiginlegum blaðamannafundi, sem forsætisráðherrar Norðurlandanna fimm héldu í Reykjavík í gær, sagði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, það aðdáunarvert hve Íslendingum hafi tekist að vinna sig hratt og vel út úr kreppunni, þótt sú þróun hafi að sjálfsögðu verið sársaukafull.

Fredrik Reinfeldt sagði sömuleiðis mikilvægt að Norðurlöndin hafi komið Íslandi til aðstoðar á sínum tíma.

Margvísleg önnur mál koma til umræðu á þinginu. Meðal annars hefur danski þingmaðurinn Mogens Jensen kynnt hugmyndir um að Norðurlandaráð komi upp sameiginlegri norrænni menningarrás í sjónvarpi, sem á að vinna á móti yfirgnæfandi áhrifum bandarísks sjónvarpsefnis á Norðurlöndunum. Þinginu lýkur á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×