Erlent

Mexíkóflói: ekki jafn slæmt og óttast var

Óli Tynes skrifar

British Petroleum virðist nú hafa tekist endanlega að stöðva lekann á botni Mexíkóflóa.

Og orkumálaráðherra Bandaríkjanna sagði í dag að 75 prósent olíunnar sem lak út séu þegar horfin.

Því valda ýmsir samverkandi þættir. Olían hefur verið hreinsuð upp, brennd upp, hún hefur gufað upp, brotnað niður og verið étin af örveirum.

Óvenju mikið er af örveirum í Mexíkóflóa, sem nærast á olíu, og hafa sjálfsagt nærst þar á náttúrulegum leka í árþúsundir.

Sú olía sem eftir er er svo útþynnt að ekki er talið að hún valdi miklu tjóni.

Undanfarnar vikur hafa borist skelfilegar myndir af fuglum og öðrum dýrum löðrandi í olíu.

Allan þann tíma sem lekinn stóð hafa fundist samtals 1.296 fuglar, 17 sæskjaldbökur og þrír höfrungar sem olían hafði sýnilega drepið.

Á sama tíma hafa fundist dauðir 1.675, fuglar 82 skjaldbökur og 53 höfrungar án þess að á þeim sæjust nokkur merki um olíu. Náttúran bara að hafa sinn gang.

Þetta var engu að síður skelfilegt slys sem kostaði ellefu manns lífið og hefur valdið gífurlegu efnahagstjóni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×