Lífið

Vill tíu milljónir fyrir Ágætis byrjun

Gotti Bernhöft Hafnaði tilboði upp á tvær milljónir í teikningar sínar.
Gotti Bernhöft Hafnaði tilboði upp á tvær milljónir í teikningar sínar.

„Tíu milljónir er tala sem myndi skipta mig máli. Tvær milljónir breyta ekki lífi mínu," segir Gotti Bernhöft, sem teiknaði frægar myndir í umslagið fyrir Ágætis byrjun, aðra plötu Sigur Rósar.

Gotti fékk nýlega tilboð upp á tvær milljónir króna í teikningarnar fjórar sem hann gerði fyrir umslagið en hafnaði því samstundis.

„Ég vil selja þær allar á tíu milljónir. Ég vil í rauninni ekki selja en ef ég ætlaði að selja þær myndi ég selja á því verði," segir Gotti, sem hefur áður fengið tilboð í aðalmynd umslagsins upp á tvær og hálfa milljón.

„Það er allt til sölu fyrir rétt verð en ég efast um að það sé til svo ríkur Sigur Rósar aðdáandi á Íslandi að hann sé tilbúinn að splæsa tíu milljónum í þetta. Ef ég vil selja þarf ég að fara með þetta á uppboð úti. Ég á örugglega eftir að gera það þegar ég hef tíma og það liggur þannig við."

Á næsta ári verða liðin tíu ár síðan Ágætis byrjun kom út í Bandaríkjunum og af því tilefni er afmælishátíð í bígerð. Bók og tónleikaferð hafa þar verið nefnd til sögunnar. „Ef maður selur myndirnar væri sniðugt að gera það þegar þetta er í gangi."

Platan Ágætis byrjun hefur farið víða, enda hefur hún selst gríðarvel síðastliðinn áratug. Spurður segist stoltur af teikningum sínum.

„Ég er stoltur af ansi mörgu sem ég hef gert en þetta er það eina sem hefur lifað og kannski farið víðar en nokkuð annað sem ég hef gert, þótt ég sé búinn að vera starfandi hönnuður í tuttugu ár," segir Gotti, sem er einnig útlitshönnuður nýja Popppunktsspilsins sem er væntanlegt.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×