Viðskipti innlent

Gjaldþrota Magnús skal greiða einn og hálfan milljarð

Magnús Þorsteinsson er búsesttur í Rússlandi.
Magnús Þorsteinsson er búsesttur í Rússlandi.

Athafnamaðurinn Magnús Þorsteinsson, sem nú er búsettur í Rússlandi, var í morgun dæmdur til þess að greiða einn og hálfan milljarð til Straums Fjárfestingabanka vegna láns frá bankanum til eignarhaldsfélagsins BOM ehf.

Málið snýst um lán sem nam rúmlega milljarð króna og var veitt árið 2005 til eignarhaldsfélagins til kaupa á hlutabréfum í Icelandic Group með veð í bréfunum sjálfum. Árið 2006 var krafist þess að Magnús skyldi gangast undir sjálfsábyrgð á láninu þar sem veð þóttu ekki nógu trygg. Sú ábyrgð nam rétt rúmlega 900 milljónum króna.

Árið 2008 var svo gengið á sjálfsábyrgð Þorsteins þar sem veð í bréfunum voru verðlaus.

Sjálfur heldur Magnús því fram að um málamyndagjörning hafi verið að ræða og hann hafi verið fullvissaður um að ekki yrði gengið að honum ef illa færi. Straumur fór í gjaldþrotamál við Magnús á síðasta ári með þeim afleiðingum að hann var úrskurðaður gjaldþrota.

Þá vakti athygli, og Vísir greindi fyrst frá, að Magnús færði lögheimili sitt til Rússlands stuttu áður en dómsmálið var dómtekið.

Nú tapaði Magnús í Héraðsdómi norðurlands eystri, og skal greiða einn og hálfan milljarð vegna lánsins.

Þess má geta að viðskipti Magnúsar voru samofin viðskiptum Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem var þá stjórnarformaður Straums, bankans sem nú fær 1,5 milljarð frá Magnúsi.

Þá sat Magnús í stjórn Eimskipa auk þess sem hann átti hlut í Samson ehf. sem var aðaleigandi Landsbankans fyrir hrun ásamt feðgunum Björgólfi og Björgólfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×