Viðskipti innlent

Útlán ÍLS hafa dregist saman um 5 milljarða í ár

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) námu tæpum 2,8 milljörðum króna í júlí en þar af voru um 1,8 milljarðar króna vegna almennra lána. Samtals námu útlán á fyrstu sjö mánuðum ársins 2010 tæpum 14,8 milljörðum króna samanborið við tæplega 19,9 milljarða yfir sama tímabil ársins 2009.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu sjóðsins. Þar segir að meðalútlán almennra lána voru um 9,9 milljónir króna í júlí samanborið við rúmar 8,7 milljónir króna í júní.

Vísitala íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, lækkaði um 1,3% frá júní 2009 til júní 2010. Reyndist lækkunin vera tilkomin vegna 8,1% lækkunar á vísitölu fyrir sérbýli en á sama tímabili hækkaði vísitala fyrir fjölbýli um 0,9%. Nánari upplýsingar eru að finna á vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is.

Heildarvelta íbúðabréfa nam um 34,2 milljörðum króna í júlí samanborið við um 66,5 milljarða í júní. Það sem af er ári hefur heildarvelta íbúðabréfa numið rúmum 374,4 milljörðum króna miðað við rúma 529,9 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu rúmum 352 milljónum króna í júlí en þær voru vegna afborgana hús-og húsnæðisbréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í júlí námu rúmum 2,8 milljörðum króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×