Erlent

Obama sendir hermenn að landamærum Mexíkós

Óli Tynes skrifar
Tugþúsundir manna hafa fallið í eiturlyfjastríðinu í Mexíkó.
Tugþúsundir manna hafa fallið í eiturlyfjastríðinu í Mexíkó. Mynd/AP

Ólöglegir innflytjendur frá Mexíkó skipta milljónum í Bandaríkjunum. Þar við bætist að í Mexíkó stendur yfir stríð milli ríkisstjórnarinnar og eiturlyfjabaróna sem hafa kostað tugþúsundir manna lífið á undanförnum árum.

Því hefur Obama forseti nú fyrirskipað að hermenn úr Þjóðvarðliðinu verði sendir að landamærum þessa vinaríkis.

Hermennirnir verða sendir að landamærunum í fjórum ríkjum landsins; Arizona, Texas, Kaliforníu og Nýju Mexíkó.

Hermennirnir verða vopnaðir en mega aðeins beita vopnum í sjálfsvörn. Helsta verkefni þeirra verður að nota hátæknibúnað til þess að fylgjast með grunsamlegum ferðum við landamærin.

Þeir hafa svo samband við landamæraverði sem  rannsaka þessar mannaferðir.

Landamærin að Mexíkó hafa lengi verið hitamál í Bandaríkjunum. Arizona hefur nú sett ný og strangari lög um ólöglega innflytjendur.

Það telst nú afbrot að koma yfir landamærin án tilskilinna pappíra. Jafnframt hefur lögreglumönnum verið gert að spyrja grunsamlegt fólk um pappíra, þó það hafi verið stöðvað  af öðru tilefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×