Enski boltinn

Benitez ánægður með sóknarleikinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Leikmenn og stjóri Liverpool gátu leyft sér að brosa í kvöld þegar mánudagsbölvuninni var létt af liðinu. Portsmouth var engin fyrirstaða fyrir Liverpool sem vann 4-1.

Ítalinn Alberto Aquilani náði meira að segja að skora fyrir Liverpool.

„Ég er búinn að bíða lengi eftir þessu marki. Ég er samt sérstaklega ánægður með sigurinn hjá okkur. Við þurfum að gera meira af þessu til að ná fjórða sætinu," sagði Aquilani.

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, var sáttastur við góðan sóknarleik sinna manna í kvöld.

„Við gerðum ráð fyrir því að spila vel í kvöld og skora mörk. Mikilvægast var hversu mikið menn hugsuðu um að sækja og það voru mikil gæði í okkar leik. Liðið í heild stóð sig vel og miðjumennirnir fengu því mikinn tíma með boltann," sagði Benitez sem var ánægður með Aquilani.

„Ég var líka mjög ánægður með Babel og Maxi stóð sig líka vel."

Steve Gerrard setti ljótan blett á leik sinna manna er hann kýldi Michael Brown. Hann var umsvifalaust tekinn af velli en Benitez vildi ekki meina að það hefði verið vegna höggsins.

„Við vorum nýbúni að tala um breytingar og að skipta Gerrard út var eitt af því sem við vorum að ræða," sagði Benitez en sá hann atvikið?

„Ég sá fjögur mörk og er afar ánægður. Ég held að þetta hafi ekki verið neitt."

 

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.