Innlent

Matur hækkar um 66 prósent

Matarkarfan Algengasta matvara sem kostaði heimili níu þúsund kall árið 2006 kostar nú rúmlega fimmtán þúsund. mynd/hrönn
Matarkarfan Algengasta matvara sem kostaði heimili níu þúsund kall árið 2006 kostar nú rúmlega fimmtán þúsund. mynd/hrönn

Verðkönnun SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu sýnir að matarkarfa landsmanna hefur hækkað um 66 prósent á síðustu fjórum árum. Karfan hefur hækkað um 34 prósent frá því í byrjun október 2008.

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði SFR-blaðsins.

Fram kemur í blaðinu að Friðrik Atlason, stjórnarmaður í SFR, hefur reglulega gert samanburð á matarkörfu í verslunum Bónus síðan árið 2006. Ávallt hafa sömu vörur verið keyptar og sama magn. Matarkarfan samanstendur af algengum vöruflokkum. Upphaflega matarkarfan kostaði Friðrik rúmlega níu þúsund krónur en rúmlega fimmtán þúsund krónur í mars síðastliðinn. Engar „dýrar lúxusvörur eru á listanum og heldur engar hreinlætisvörur“.

Á tímabilinu sem um ræðir, október 2008 til mars 2010, hefur vísitala neysluverðs hækkað um 12,6 prósent, segir í greininni. Þá hefur kaupmáttur launa rýrnað um 8,3 prósent frá því í október 2008.

Það er mat SFR að matarkaup séu almennt orðin hlutfallslega stærri og þyngri hluti heimilisútgjalda en nokkru sinni. Því sé ljóst að það verði viðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar á komandi misserum að taka á þessari þróun og verja kaupmátt launa. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×