Handbolti

Jafntefli hjá Degi og Guðmundi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dagur er að gera flotta hluti með Berlin.
Dagur er að gera flotta hluti með Berlin.

Guðmundur Guðmundsson er enn taplaus sem þjálfari Rhein-Neckar Löwen. Litlu mátti muna að Guðmundur hefði tapað sínum fyrsta leik í dag er hann mætti með lið sitt til Berlínar þar sem Löwen mætti liði Dags Sigurðssonar, Fuchse Berlin.

Úr varð hörkuleikur milli þessara tveggja toppliða sem endaði með jafntefli, 28-28.

Berlin leiddi leikinn lengstum en Löwen átti magnaðan endasprett og náði að jafna. Berlin fór afar illa að ráði sínu í síðustu tveim sóknum liðsins er það hefði getað tryggt sér sigur.

Liðin eru jöfn með 15 stig í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Hamburg vann sinn leik í dag og er í öðru sæti með 16 stig, rétt eins og topplið Kiel.

Alexander Petersson lék vel fyrir Berlin í dag og skoraði fimm mörk. Alexander varð reyndar fyrir smá meiðslum í leiknum en kláraði hann þó. Það er vonandi fyrir landsliðið að Alexander sé ekki illa meiddur.

Ólafur Stefánsson skoraði sex mörk fyrir Löwen, þar af þrjú úr vítum, og gaf fjölmargar stoðsendingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×