Erlent

Yfir 500 hús eru ónýt eftir jarðskjálfta

Sprunga sem er allt að 3,5 metrar á breidd myndaðist í jarðskjálftanum og urðu víða skemmdir á húsum og vegum vegna hennar.Fréttablaðið/AP
Sprunga sem er allt að 3,5 metrar á breidd myndaðist í jarðskjálftanum og urðu víða skemmdir á húsum og vegum vegna hennar.Fréttablaðið/AP
Í það minnsta 500 hús í borginni Christchurch á Nýja-Sjálandi eru hrunin eftir jarðskjálfta sem reið yfir á föstudag og fjöldi húsa til viðbótar skemmdist. Mikil mildi þykir að enginn hafi látist og aðeins tveir slasast illa.

Skjálftinn, sem var um 7,1 að styrkleika, varð klukkan 4.35 að laugardagsmorgni þegar flestir íbúar voru í fastasvefni. „Ef skjálftinn hefði orðið fimm klukkustundum fyrr eða fimm klukkustundum seinna hefði manntjónið getað orðið gríðarlegt,“ sagði John Key, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. Um 400 þúsund manns búa í Christchurch.

Rafmagni sló út í borginni og nærsveitum vegna skjálftans, og vatns- og gasleiðslur fóru í sundur. Rafmagn var komið á víðast hvar á sunnudag, en ekki hafði tekist að koma öðrum leiðslum í lag. Stórir vatnsdunkar og færanleg klósett voru flutt í hverfi þar sem enn var vatnslaust í gær.

Einhver tími mun líða þar til lífið kemst í samt lag í Christchurch. Skólar verða lokaðir næstu daga þar til gengið hefur verið úr skugga um að þeir séu íveruhæfir.

Nýja-Sjáland liggur á flekamótum Kyrrahafsflekans og Ástralíuflekans. Jarðskjálftar eru algengir þar sem flekarnir rekast saman. Mark Quigley, jarðfræðiprófessor við Canterbury háskóla á Nýja-Sjálandi, segir að svo virðist sem ný brotalína hafi myndast í skjálftanum. Sprunga myndaðist og jörðin lyftist á sumum stöðum allt að tvo metra upp, segir Quigley.

„Þetta er löng brotalína sem hefur rústað húsum og klofið í sundur vegi,“ segir Quigley. „Við sáum tvö hús sem höfðu brotnað í tvennt í skjálftanum.“

„Jörðin mín lítur út eins og úfinn sjór núna,“ segir Roger Bates, bóndi sem á kúabú skammt frá upptökum skjálftans. Hann segir að jörðin hafi gengið í öldum, og hækkunin þar sem brotalínan gangi í gegn sé allt að 1,5 metrar.

Sérfræðingar telja að manntjón í skjálftanum hafi verið lítið vegna strangra reglna um húsbyggingar á Nýja-Sjálandi. Reglurnar voru hertar til muna fyrir tíu árum.

Jarðskjálftar eru algengir á Nýja-Sjálandi. Um 1.400 skjálftar verða á hverju ári, en aðeins 150 eru nægilega öflugir svo íbúar verði varir við þá. Síðasti öflugi jarðskjálftinn sem reið yfir eyjarnar varð í júlí 2009. Hann var 7,8 að styrkleika, svo öflugur að hann færði suðurodda landsins 30 sentimetrum nær Ástralíu.

brjann@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×