Erlent

Fleiri börn greinast með drómasýki í Finnlandi

Hætt hefur verið að gefa bóluefnið Pandemix við svínaflensu tímabundið í Finnlandi eða þar til endanlegar niðurstöður liggja fyrir um tengsl þess við sjúkdóminn.
Hætt hefur verið að gefa bóluefnið Pandemix við svínaflensu tímabundið í Finnlandi eða þar til endanlegar niðurstöður liggja fyrir um tengsl þess við sjúkdóminn.
Fleiri börn hafa greinst með drómasýki á síðustu sex mánuðum í Finnlandi en áður þekkist, og vilja einhverjir rekja það til bólusetningu við svínaflensu. Hætt hefur verið að gefa efnið Pandemix tímabundið, eða þar til niðurstaða liggur fyrir.

Drómasýki er taugasjúkdómur sem veldur ýmsum furðulegum svefntruflunum en sagt er frá málinu í finnska blaðinu, Helsingin Sanomat, í dag. Meðal annars hefur verið tekin ákvörðun um að hætta að gefa bóluefnið Pandemix við svínaflensu tímabundið, eða þar til endanlegar niðurstöður liggja fyrir um tengsl þess við sjúkdóminn.

Á þriðjudag höfðu 15 tilfelli greinst meðal barna á aldrinum 5 til 16 ára síðan í desember, en þau áttu það öll sameiginlegt að sofna skyndilega. Að meðaltali greinast um sex tilfelli af drómasýki meðal ungs fólks og barna á ári hverju í Finnlandi en einnig hefur orðið vart við aukningu á sjúkdómnum í Svíþjóð eftir að bólusetning við svínaflensu hófst.

Pekka Puska yfirmaður THL, sem er stofnun sambærileg Landlæknisembættinu, segir ákvörðunina um að hætta að gefa Pandemix fyrst og fremst vera varúðarráðstöfun. Þetta verði gert þar til búið verði að rannsaka málið.

Félagsmálaráðherra Finnlands lætur hafa eftir sér í blaðinu í dag að þegar upp komi heimsfaraldur líkt og svínaflensa, verði að taka ákvörðun eins fljótt og auðið er, og erfitt sé að gera miklar rannsóknir áður en ákvarðanir séu teknar, því allt sé þetta spurning um tíma.

Margar ástæður geta hinsvegar legið að baki þessari aukningu á drómasýki og hefur Marjo Renko sem fer fyrir hópi sérfræðinga í bóluefnum sagt að engin sönnun sé fyrir því að aukning á tilfellunum tengist bóluefninu. Hún búist ekki við að svo sé, enda séu þetta einungis vangaveltur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×