Innlent

Kristján Þór leggur mannorð sitt að veði

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson.
„Hér er ekki verið að grafa neitt, ekki skjóta neinu á frest né komast hjá erfiðum umræðum,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins í dag. Hann mun fara fyrir svokallaðri Framtíðarnefnd sem ætlað er það hlutverk að endurskoða og móta áherslur í skipulagi og starfi Sjálfstæðisflokksins.

„Í þessu starfi skal ástunda opin vinnubrögð og gegnsæja pólitík og legg ég mannorð mitt undir þegar ég segi að þessar nefndir munu skapa Sjálfstæðisflokknum grundvöll til þess að sækja fram á lýðræðislegum, málefnalegum, hugmyndarfræðilegum og framsæknum forsendum, byggðum á gildum flokksins og sögu, menningu hans og sérstöðu,“ sagði Kristján Þór.

Hann sagði sjálfstæðismenn þurfa að tala fyrir samfélagi þar sem mönnum sé gefið frelsi til athafna en séu ekki læstir inn í járnbúri skriffinnskunnar. Þar sem frumkvæði sé treyst en ekki brotið niður.

Þá benti Kristján Þór á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins sé nú haldinn í annað sinn á 18 mánuðum frá efnahagshruninu. Hann sagði mikilvægt að horfa til framtíðar og leggja áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn lagi starfshætti sína og skipulag að breyttum tímum samhliða því sem áhersla sé lögð á að virkja grasrót hans í umfangsmiklu málefna- og stefnumótunarstarfi.

„Það afl sem býr innra með flokknum þarf að virkja enn betur til að hægt sé að brjótast út úr þeirri stöðnun sem  núverandi ríkisstjórn er að kalla yfir íslenskt samfélag. Þess vegna er það starf sem fram fer á þessum fundi svo mikilvægt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×