Innlent

Dómstólar eiga síðasta orðið

Forystumenn ríkisstjórnarinnar.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar. Mynd/Anton Brink
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna tilmæla Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um gengistryggð lán segir að þótt tímabundin óvissa ríki um endanlega niðurstöðu dómstóla sé mikilvægt að stöðuleiki á fjármálamarkaði verði áfram tryggður. Ríkisstjórnin virðir sjálfstæði Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og ber fullt traust til þessara stofnana við að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Dómstólar eigi þó síðasta orðið varðandi réttarágreining sem enn er uppi vegna lánanna.

Samningsvextir gengistryggðra lána verða ekki látnir gilda við uppgjör þeirra, heldur hagstæðustu vextir Seðlabankans, samkvæmt tilmælum sem FME og Seðlabankinn hafa sent fjármálafyrirtækjum. Í flestum tilfellum munu vextir, og þar með staða lánsins, ríflega tvöfaldast frá því sem margir lántakendur höfðu vonast eftir.

Tilmælin eru tímabundin og er þeim ætlað að draga úr óvissu þar til Hæstiréttur hefur dæmt um ágreiningsefni í lánasamningunum. Stofnanirnar telja hvorki að lagaleg né efnahagsleg rök hnígi að því að erlendu vaxtakjörin haldi. Þær vilja með tilmælum sínum skapa stöðugleika í fjármálakerfinu, en eins og fram hefur komið geta dómar Hæstaréttar haft veruleg áhrif á eiginfjárstöðu bankanna.

Tilmælin fela í sér að lánasamningar með gengistryggingarákvæði sem fjármálafyrirtækin meta að séu ólögmæt samkvæmt nýföllnum dómum Hæstaréttar verði endurreiknuð svo fljótt sem auðið er. Miðað verði við vexti sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum sem nú gilda á lánamarkaði.

Á vef Seðlabanka Íslands kemur fram að lægstu vextir á almennum óverðtryggðum útlánum eru um 8,25% en á verðtryggðum lánum eru vextirnir 4,80%. Erlendu vextir lánanna voru yfirleitt öllu lægri, eða lægst um þrjú prósent.

Það er því augljóst að lánsvextir mjög margra lántakenda munu hækka frá því sem þeir höfðu vonast eftir.


Tengdar fréttir

Tilmælin eiga að skapa festu í viðskiptum og traustu fjármálakerfi

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir að tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggingarákvæða sé ætlað að skapa festu í viðskiptum og stuðla að öruggu fjármálakerfi. Með tilmælunum séu FME og Seðlabankinn að sinna þeirri lagaskyldu sem á þeim hvílir. Hann segir brýna almannahagsmuni krefjast þess að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið setji fram almennar leikreglur sem varðveiti stöðugleika á meðan greitt sé úr réttaróvissu.

Lilja Mósesdóttir: Það á allt eftir að loga í málaferlum

„Það á allt eftir að loga í málaferlum,“ segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, um tilmæli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um að lánastofnanir eigi að fylgja óverðtryggðum vöxtum Seðlabankans, í stað samningsvaxta gengistryggðra lánasamninga.

Samningar verði endurreiknaðir miðað við vexti Seðlabankans

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafa sent fjármálafyrirtækjum þau tilmæli að þeim beri að endurreikna þau lán sem innihalda gengistryggingarákvæði sem eru óskuldbindandi samanber dóma Hæstaréttar. Ekki verði miðað við upphaflega vexti lánanna sem í mörgum tilvikum voru í kringum þrjú prósent, heldur vexti sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum sem nú gilda á lánamarkaði. Á vef Seðlabanka Íslands kemur fram að lægstu vextir á almennum óverðtryggðum útlánum er um 8,25% en á verðtryggðum lánum eru vextirnir 4,80%.

Segir Seðlabankann og FME hvetja til lögbrota

„Ég fæ ekki betur séð en að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið séu að hvetja til lögbrota," segir Marinó G. Njálsson, hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, um tilmæli sem Seðlabankinn og FME beina til fjármálafyrirtækja vegna gengistryggðra lánasamninga og var tilkynnt um í morgun.

Segja seðlabankann og FME hafa lýst yfir stríði

Samtök lánþega segja í yfirlýsingu að Seðlabanki og FME hafi í raun lýst yfir stríði á hendur almennum borgurum þessa lands með tilmælum sínum sem eftirlitsstofnanirnar tilkynntu í morgun. Þar var þeim tilmælum beint til fjármálafyrirtækja að fylgja vöxtum seðlabankans í stað þess að reikna úr lánin út frá samningsvöxtum. Vextir seðlabankans eru 8,25 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×