Enski boltinn

Neville: Nani getur fyllt skarð Ronaldo

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Gary Neville hefur tröllatrú á liðsfélaga sínum, Nani, og segir að hann sé smám saman að sýna og sanna að hann geti fyllt skarð landa síns, Ronaldo, hjá Man. Utd.

Nani hefur ekki átt góðu gengi að fagna hjá United síðan hann var keyptur á 17 milljónir punda frá Sporting Lisbon. Miklar væntingar eru gerðar til leikmannsins sem hefur ekki tekist að ná þeim framförum sem búist var við.

Hann hefur þó sýnt lipra takta í síðustu leikjum og Neville segir að hann hafi einfaldlega þurft tíma, rétt eins og Ronaldo.

„Frammistaða Nani gegn Hull, Man. City og Arsenal var algjörlega frábær. Hann hefur ótrúlega hæfileika og þegar hann dettur í gírinn er hann óstöðvandi. Leikmenn eins og Nani með svona mikla hæfileika þurfa einnig að hafa sjálfstraustið í lagi," sagði Neville.

„Við vonumst til þess að hann geti haldið áfram á sömu braut því þessi strákur getur unnið leiki. Ég held að Nani geti orðið eins góður og hann vill verða. Stundum tekur það unga menn að aðlagast. Það tók Ronaldo líka tíma."

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×