Erlent

Svört skýrsla um aðbúnað togarasjómanna í Afríku

MYND/EJF

Bresk umhverfisverndarsamtök segja að aðbúnaður sjómanna á togurum við Vestur Afríku, sé hræðilegur, og kjörum þeirra megi líkja við þrælahald. Fjögur íslensk fyrirtæki gera út togara á þessum slóðum. Öll skipin sem um ræðir hafa leyfi til að selja fisk sinn á Evrópumarkað að því er fram kemur í Breska blaðinu Guardian, sem fjallar um skýrslu samtakanna Environmental Justice Foundation í dag.

Fullyrt er í skýrslunni að áhafnir séu beittar ofbeldi, mennirnir fái ekki greitt, vegabréf séu tekin af þeim við komuna um borð og að sumir sjómannanna hafi ekki fengið að fara frá borði svo mánuðum og jafnvel árum skiptir. Þá er skortur á drykkjarvatni í sumum þessara togara.

Fréttastofunni er kunnugt um fjögur íslensk fyrirtæki, sem gera út hátt í tíu togara á þessum slóðum. Ekki náðist í talsmenn þeirra fyrir fréttir, en Fréttastofan þekkir lítilsháttar til reksturs tveggja þeirra. Þau leigja veiðiheimildir af viðkomandi strandríkjum, og manna skip sín heimamönnum, samkvæmt samkomulagi við stjórnvöld, að yfirmönnum undanskildum, sem yfirleitt eru Íslendingar.

Togarar þessara fyrirtækja eru, samkvæmt vitneskju Fréttastofunnar smíðaðir með kröfur vestrænna sjómanna og fiskkaupenda í huga, en Fréttastofan þekkir ekki til útgerðarhátta hinna þriggja fyrirtækjanna.

Á heimasíðu The Guardian má sjá myndband frá samtökunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×