Viðskipti innlent

Innlend velta vex um 7,4% í krónum talið

Innlend velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum var ríflega 7,4% meiri í krónum talið á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs samanborið við sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga er aukningin þó mun minni, eða um 0,5%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta sé í fyrsta sinn síðan á tímabilinu september til október 2008 sem velta eykst að raunvirði frá sama tímabili árið á undan. Á þennan mælikvarða hefur því verulega dregið úr samdrættinum í hagkerfinu en til samanburðar var samdrátturinn 17,0% að raunvirði á fyrstu tveimur mánuðum ársins í fyrra samanborið við sama tímabil 2008. Þetta má sjá í tölum yfir veltu fyrirtækja samkvæmt VSK-skýrslum sem Hagstofan birti nú í morgun.

Í þessum tölum má jafnframt sjá hversu ólíku þróun veltu er í hinum ýmsu atvinnugreinum sem er til marks um hversu misjöfn efnahagsleg skilyrði íslensk fyrirtæki búa við um þessar mundir. Þannig er enn verulegur samdráttur í mörgum atvinnugreinum sem tengjast innlendri eftirspurn. Má þar nefna byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Á ofangreindu tímabili veltu þessar greinar 15,1% færri krónum en á sama tíma árið áður.

Einnig er enn töluverður samdráttur í veltu bílasölu en sú grein, líkt og sú sem á undan er getið, hefur átt verulega undir högg að sækja frá því að bankahrunið skall á. Þannig velti bílasala 17,0% færri krónum á fyrstu tveimur mánuðum ársins samanborið við sama tímabil 2009 Á hinn bóginn jókst veltan í umboðs- og heildsölu um ríflega 3% í krónum talið á sama tíma og velta í smásölu um 0,6%.

Miðað við tölur Hagstofunnar er ljóst að þær greinar sem heyra undir útflutning eru í annarri stöðu. Þannig jókst veltan í fiskveiðum um 16,9% að nafnvirði á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs frá sama tímabili í fyrra. Þá jókst velta í matvæla- og drykkjarvöruiðnaði, sem nær bæði yfir landvinnslu sjávarfangs og matvöruframleiðslu til innlendrar neyslu, um 10,9% að nafnvirði á sama tímabili. Mun meiri aukning var á veltu í framleiðslu málma sem jókst um 93,6% á tímabilinu. Velta í flugsamgöngum jókst um 7,7% í krónum talið og velta hjá hótelum og veitingastöðum um rúm 9,2%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×