Erlent

Ágreiningur fyrir fundinn

David Cameron, nýr forsætisráðherra Bretlands, sækir leiðtogafund G20-ríkjanna í fyrsta sinn.fréttablaðið/AP
David Cameron, nýr forsætisráðherra Bretlands, sækir leiðtogafund G20-ríkjanna í fyrsta sinn.fréttablaðið/AP

Nú um helgina ætla leiðtogar tuttugu auðugustu ríkja heims að hittast á fundi í Kanada til að ræða efnahagsvandann í heiminum.

Á síðasta ári komu þeir sér saman um nokkuð róttækar aðgerðir til að örva efnahagsvöxt í kjölfar kreppunnar miklu, sem þá var nýskollin á. Nú virðast þeir hins vegar eiga erfiðara með að tala einni röddu, enda hafa málin þróast á ólíkan veg eftir löndum, þannig að þau standa frammi fyrir ólíkum vandamálum nú á efnahagssviðinu.

Hluti spennunnar felst í því að leiðtogaskipti hafa orðið á síðustu vikum í þremur ríkjanna, Bretlandi, Japan og nú síðast Ástralíu.

Spennan hefur þó verið einna mest milli Þjóðverja og fleiri Evrópuríkja, sem hafa boðað strangar sparnaðaraðgerðir til að draga úr fjárlagahalla, og svo Bandaríkjanna og fleiri ríkja sem vilja halda áfram að örva hagvöxt með örlæti í ríkisútgjöldum.

Evrópuríkin hafa mörg hver miklar áhyggjur af gríðarlegri skuldasöfnun og þeirri hættu sem hún hefur í för með sér, ekki síst fyrir evruna, hina sameiginlegu mynt sextán Evrópusambandsríkja. Vandi Grikkja hefur heldur betur hrist upp í stjórnvöldum stærri Evrópusambandsríkjanna, sem hafa boðað harkalegan niðurskurð.

Fyrir utan þetta áhyggjumál hafa ríkin 20 ólíkar hugmyndir um það hvernig best sé að styrkja eftirlit með fjármálakerfinu til að tryggja að ekki verði nýtt bankahrun. Ólíklegt þykir að þær deilur verði allar leystar.

Viðræðurnar hefjast strax í dag á fundi G8-ríkjahópsins skammt norður af Toronto, en síðan bætast hin ríkin í hópinn á laugardag þegar G20-fundurinn sjálfur hefst í Toronto-borg og stendur hann fram á sunnudag.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×