Erlent

Reynt að koma böndum á drykkju Breta

Bretar reyna nú að stemma stigu við ofdrykkju og ætla að banna bareigendum að bjóða upp á freistandi tilboð.

Alls kyns kynningar og afslættir á börum í Englandi verða bannaðir með lögum frá Apríl næstkomandi nái nýtt frumvarp fram að ganga. Pöbbar, klúbbar og barir mega þá ekki halda drykkjukeppnir auk þess sem einskona drykkjarhlaðborð, þar sem gestum býðst að drekka eins mikið og þeir geta fyrir tíu pund innan ákveðins tíma verða bönnuð.

Þá verður vertum einnig gert að bjóða upp á drykki í smærri skömmtum fyrir þá sem það vilja og kranavatn verður að vera ókeypis. Alan Johnson innanríkisráðherra segir að með nýju lögunum sé ætlunin að koma böndum á drykkjusiði sem oft á tíðum gangi út í öfgar hjá breskum almenningi.

Að auki segir hann að með lögunum megi draga úr glæpum sem tengja megi við ofdrykkju og spara ríkinu þarmeð milljónir punda á ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×