Erlent

Bandaríkin senda drápssveitir til Yemens

Óli Tynes skrifar
Finna og drepa.
Finna og drepa.

Yemen er að verða eitt af helstu víghreiðrum al-Kaida utan Afganistans og Pakistans. Hryðjuverkasamtökin reka þar þjálfunarbúðir. Nígeríumaður sem reyndu að sprengja bandaríska farþegavél á jóladag fékk þjálfun sína í Yemen.

Barack Obama forseti samþykkti fyrir sex vikum að nokkrir tugir sérsveitarmanna yrðu sendir til Yemens til að hjálpa þarlendum að brjóta al-Kaida á bak aftur.

Hermennirnir eru úr sveit sem kölluð er Joint Special Operations Command. Aðalhlutverk hennar er að leita uppi og drepa hryðjuverkamenn hvar sem er í heiminum þar með talda bandaríska ríkisborgara.

Bandaríska blaðið New York Times segir að síðan hafi tugir al-Kaida liða verið drepnir, þar á meðal sex af fimmtán æðstu foringjum þeirra.

Bandaríkjamennirnir taka ekki beinan þátt í árásunum. Þeir hjálpa hinsvegar til við skipulagningu þeirra, leggja á ráðin um aðferðir og leggja til vopn og skotfæri.

Þeir hafa aðgang að gervihnöttum rafrænum hlerunum og öðrum hátæknibúnaði. Þeir geta einnig kallað til ómannaðar eftirlitsflugvélar sem eru vopnaðar eldflaugum.

Þær geta sveimað klukkustundum saman yfir landinu og fylgst með öllu sem þar gerist með myndavélum og ratsjám sem senda upplýsingar beint í stjórnstöð.

Ef þær sjá vænlegt skotmark getur stjórnstöðin látið þær gera eldflaugaárás.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×