Innlent

Endurskoðun AGS veitti stjórnvöldum skjól

Steingrímur segir töf á samningum um Icesave ekki hafa stór tímabundin áhrif vegna þess skjóls sem endurskoðun AGS veitir.
fréttablaðið/pjetur
Steingrímur segir töf á samningum um Icesave ekki hafa stór tímabundin áhrif vegna þess skjóls sem endurskoðun AGS veitir. fréttablaðið/pjetur

„Þráðurinn á milli er óslitinn, en það eru engin tíðindi,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um viðræður um Icesave. Enn er allt á huldu um hvort og hvenær samningaviðræður verða teknar upp að nýju.

Steingrímur segir forkólfa samninganefndanna hafa verið í samskiptum og sjálfur hafi hann, síðast í gær, farið yfir tölvubréf sem fóru þeirra á milli.

„Menn hafa verið að fara yfir stöðuna og senda fram og til baka mat og sýn manna á þeim vandamálum sem óleyst eru og hvernig hægt er að leysa þau og hvað þurfi til að hægt sé að setjast að viðræðuborðinu.“

Gengið verður að kjörborðinu í Bretlandi á föstudag og Steingrímur segir Bretana ekki hafa verið spennta fyrir að viðræður dúkkuðu upp skömmu fyrir kosningar. Þeir hafi þó ekki sagt það berum orðum. Þá verður kosið í Hollandi innan tíðar einnig.

Hann telur úrslit kosninganna geta haft áhrif á viðræðurnar að því leyti að komi nýir húsbændur þurfi að kynna þeim málið og þeir leggja nýjar línur.

Hvað áhrif þess að hafa Icesave óleyst varðar segir Steingrímur að það hafi engin stór áhrif tímabundið, þar breyti endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) öllu.

„Ég held að menn átti sig kannski ekki á því hve miklu hún skipti fyrir okkur. Hún veitir okkur skjól.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×