Erlent

Langir biðlistar eftir plássi í einkaskólum í Kaupmannahöfn

Æ fleiri börn og unglingar eru nú skráð til náms í einkaskólum í Kaupmannahöfn. Ef þróunin heldur áfram má reikna með að 40% nemenda borgarinnar stundi einkaskóla eftir áratug.

Fjallað er um málið í Ekstra Bladet en þar segir að foreldrar hafi varla lokið við að klippa á naflastreng nýfæddra barna sinna þegar búið er að skrá þau til náms í einkaskóla. Aðsóknin að þessum skólum er hinsvegar svo mikil að jafnvel umsóknum fyrir nýfædd börn er hafnað.

Greint er frá hinni þriggja vikna gömlu Fiu en umsókn foreldra hennar um nám við Frederiks Barfods Skole á Fredriksberg var hafnað þegar þeir reyndu að skrá hana þar til náms árið 2016. Hún er nú komin á biðlista í skólanum.

Fia er ekki sú eina sem fær höfnun. Þannig er sagt frá því að við menntaskóla Ingrid Jespersen eru nú 5.000 nemendur á biðlista. Sem stendur ganga 28& af öllum börnum og unglingum í Kaupmannahöfn í einkaskóla. Þetta hlutfall fer í 40% eftir tíu ár ef svo heldur sem horfir samkvæmt rannsókn sem gáfnaveitan Cevea hefur gert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×