Viðskipti innlent

Nýir eigendur og forstjóri hjá Tali

Úr auglýsingaherferð Tals.
Úr auglýsingaherferð Tals.
Nýir eigendur tóku í dag við rekstri fjarskiptafyrirtækisins Tals. Var Ingvar Garðarson ráðinn forstjóri félagsins en hann tekur við af Hermanni Jónssyni, sem sest í stjórn félagsins. Eigendurnir eru Auður I fagfjárfestasjóður slf. og Kjartan Örn Ólafsson sem í dag hefur keypt 5% hlut í Tali. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Auði Capital.

Þar segir að með aðkomu nýrra eigenda hafi fjárhagslegur grundvöllur félagsins verið styrktur. Tal sé því vel í stakk búið til að veita viðskiptavinum sínum öfluga fjarskiptaþjónustu á sviði farsíma, nettenginga, sjónvarps og heimasíma.

Ingvar er löggiltur endurskoðandi og hefur síðustu þrjú ár unnið við eigin rekstur, en starfaði á árunum 2003-2007 á Írlandi þar sem hann stýrði uppbyggingu verkefna á fjarskiptamarkaði á vegum Columbia Ventures Corp. og Magnet Networks. Þar áður var Ingvar framkvæmdastjóri símafélagsins Halló sem sameinaðist Og Vodafone árið 2002.

Aðrir í stjórn eru Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður, Hjálmar Gíslason, Kjartan Örn Ólafsson og Arna Harðardóttir, sem er framkvæmdastjóri Auðar I fagfjárfestasjóðs. Varamaður er Baldur Már Helgason.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×