Lífið

Tábrotnaði við að ganga frá skattaskýrslunni sinni

Rúmlega fimm tíma ferð Sigtryggur Baldursson tábrotnaði við gerð skattaskýrslunnar sinnar á þriðjudaginn og þurfti að eyða þremur tímum í einangrun á spítalanum.Fréttablaðið/Pjetur
Rúmlega fimm tíma ferð Sigtryggur Baldursson tábrotnaði við gerð skattaskýrslunnar sinnar á þriðjudaginn og þurfti að eyða þremur tímum í einangrun á spítalanum.Fréttablaðið/Pjetur

„Ég hef alltaf sagt að bókhald er hættuleg starfsgrein og það sannaðist rækilega á þriðjudaginn," segir Sigtryggur Baldursson, trommari með meiru. Hann brotnaði á miðtá hægri fótar við gerð skattaskýrslunnar sinnar.

„Ég sat inni á skrifstofunni minni og ætlaði að teygja mig í einhver gögn á hillu fyrir ofan mig," segir Sigtryggur. „Ég rakst í kollinn sem ég sat á og sparkaði honum undan mér án þess að uppgötva það sjálfur. Þegar ég ætla síðan að setjast aftur þá er auðvitað enginn kollur og ég dett beint á rassinn með þeim afleiðingum að ég sparka af alefli undir skrifborðið með hægri fætinum," útskýrir Sigtryggur en við það kubbaðist miðtáin á fætinum í sundur.

Þegar Sigtryggur mætti á slysavarðstofuna í Fossvoginum tók ekki betra við. Hann var spurður hefðbundinna spurninga um heilsufar sitt og hvort hann hefði legið inni á sjúkrahúsi síðustu sex mánuði. „Því miður þá hafði ég látið fjarlæga góðkynja æxli af annarri hendinni þegar ég var í tónleikaferð með Emilíönu Torrini. Ég ruglaðist hins vegar á mánuðum og sagði aðgerðina hafa verið framkvæmda í nóvember þegar hún var í raun og veru gerð í október."

Þessi litli ruglingur þýddi að Sigtryggur þurfti að dúsa í þrjá tíma í einangrun.

„Og þegar táin var loks mynduð hafði sjúkrastofan verið útbúin sérstaklega og þegar þetta var allt saman búið var mér sagt að fara rakleiðis út, ekki stoppa eða borga heldur láta mig hverfa," segir Sigtryggur sem vill þó taka skýrt fram að hann er starfsfólki slysavarðstofunnar ákaflega þakklátur fyrir þá umönnun sem hann fékk. freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.