Viðskipti innlent

Landsbankinn telur launakjör starfsmanna eðlileg

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þegar fréttastofa óskaði eftir skýringum á þessu í morgun frá Landsbankanum, fengust þau svör að bankinn teldi þessi laun eðlileg.
Þegar fréttastofa óskaði eftir skýringum á þessu í morgun frá Landsbankanum, fengust þau svör að bankinn teldi þessi laun eðlileg.

Landsbankinn telur launakjör starfsmanna sinna, sem eru með hærri laun en forsætisráðherra, eðlileg og vísar til eigendastefnu ríkisins sem gefin var út af Bankasýslunni á síðasta ári.

Eins fréttastofa greindi frá í gærkvöldi kemur fram í nýju árshlutauppgjöri Landsbankans, sem er nánast að öllu leyti í eigu ríkisins, að laun, fríðindi og lífeyrisgreiðslur til tuttugu stjórnenda bankans nemi að meðaltali 950 þúsund krónum á mánuði.

Í nýlegum lögum um kjararáð er kveðið á um að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra, þau eru 935 þúsund krónur á mánuði. Tuttugu stjórnendur ríkisbankans Landsbankans eru því á hærri launum en forsætisráðherra.

Þegar fréttastofa óskaði eftir skýringum á þessu í morgun frá Landsbankanum, fengust þau svör að bankinn teldi þessi laun eðlileg. Þau væru jafnframt í samræmi við tilmæli sem kæmu fram í eigendastefnu ríkisins sem Bankasýsla ríkisins hefði mótað.

Í eigendastefnu ríkisins vegna eignarhalds á fjármálafyrirtækjum segir að opinber fjármálafyrirtæki, eins og Landsbankinn, skuli tileinka sér hófsemi þegar kemur að launum. Með þessu sé átt við að laun stjórnenda eigi að standast samanburð á markaðnum, en séu ekki leiðandi. Þetta er hins svegar ekki útskýrt frekar í eigendastefnunni og ekki er vikið að fjárhæðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×