Erlent

Búist við brottrekstri forstjóra BP

Allar líkur eru sagðar á að Tony Hayward, forstjóri BP, þurfi að láta af starfi sínu. fréttablaðið/afp
Allar líkur eru sagðar á að Tony Hayward, forstjóri BP, þurfi að láta af starfi sínu. fréttablaðið/afp
Tony Hayward, forstjóri British Petroleum (BP), lætur af störfum á allra næstu dögum, að því er breskir fjölmiðlar greina frá. Stjórn BP staðfestir ekki orðróminn og hefur gefið frá sér tilkynningu í þá veru að Hayward njóti trausts fyrirtækisins.

Breskir fjölmiðlar þykjast þó vita að Hayward, sem hefur borið hitann og þungann af olíuslysinu í Mexíkóflóa í apríl, sé að semja um starfslok sín og að yfirlýsingar um afsögn hans sé að vænta á næstu sólarhringum.

Talið er líklegt að Bandaríkjamaðurinn Bob Dudley, sem nú ber ábyrgð á hreinsunarstarfi eftir slysið, muni taka við starfinu.

Tony Hayward hefur verið harðlega gagnrýndur vegna olíulekans á Mexíkóflóa og þess hve illa gekk að komast fyrir hann. Lagt hefur verið hart að olíuframleiðandanum að bæta orðinn hlut, en brottrekstur Haywards er talinn vera nauðsynlegur þáttur í viðleitni fyrirtækisins til að endurheimta orðspor sitt.

- áp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×