Erlent

Nixon íhugaði kjarnorkuárás á Norður-Kóreu

Óli Tynes skrifar
B-52 flugsveitum var skipað í viðbragðsstöðu.
B-52 flugsveitum var skipað í viðbragðsstöðu.

Richard Nixon forseti Bandaríkjanna íhugaði að fyrirskipa kjarnorkuárás á Norður-Kóreu árið 1969.

Þá höfðu Norður-Kóreumenn skotið niður bandaríska njósnaflugvél í alþjóðlegri lofthelgi. Þrjátíu og einn Bandaríkjamaður fórst með vélinni.

Þetta gekk svo langt að völdum flugsveitum var fyrirskipað að búa sig undir að gera árásir sem myndu eyða sextán helstu flugvöllum Norður-Kóreu og auk þess flotastöðvum og stjórnstöðvum hersins.

Í skjölum sem birt hafa verið um þetta atvik segir að ljós sé að Nixon og Henry Kissinger öryggisráðgjafi hans hafi fljótlega komist að þeirri niðurstöðu að kjarnorkuárás væri ekki kostur í stöðunni.

Tveim dögum eftir að bandaríska vélin var skotin niður hélt forsetinn blaðamannafund. Þar virtist hann útiloka hernaðarlegar refsiaðgerðir. Borið var lof á hann fyrir stillingu.

Yfirherstjórn Bandaríkjanna lagði fram tillögur um mögulegar aðgerðir gegn Norður-Kóreu. Þar var meðal annars að finna tillögur um mismunandi harðar kjarnorkuárásir.

Í öllum tilfellum varaði herstjórnin við því að að kjarnorkuvopnum yrði beitt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×