Viðskipti innlent

Verðbólguvæntingar fyrirtækja fara vaxandi

Verðbólguvæntingar fyrirtækja hafa hækkað undanfarið samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Seðlabankann í lok desember, en niðurstöður hennar birti bankinn nýverið í Hagvísum bankans fyrir janúarmánuð.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að samkvæmt könnuninni gera forsvarsmenn stærstu fyrirtækja landsins ráð fyrir að verðbólga verði 6% að tólf mánuðum liðnum. Þegar könnunin var gerð síðast september gerðu þeir ráð fyrir að árstaktur verðbólgu yrði 4% og er því ljóst að frá þeim tíma hafa verðbólguvæntingar þeirra aukist nokkuð.

Ætla má að það sem spilar hér inn í væntingar stjórnenda séu áhrif óbeinna skatta á verðbólgu sem og væntingar þeirra um veikara gengi krónunnar, sem hvort tveggja myndar töluverðan verðbólguþrýsting. Þess má geta að í lok desember 2008 spáðu forsvarsmenn fyrirtækja að verðbólgan yrði 15% eftir tólf mánuði og ljóst er nú að þeir voru helst til of svarsýnir á þeim tíma þar sem verðbólgan reyndist vera 7,5% í desember síðastliðnum.



Almenningur væntir þess að verðbólgan verði 10% eftir tólf mánuði samkvæmt sömu könnun sem framkvæmd var í nóvember síðastliðnum, og eru væntingarnar almennings óbreyttar frá því að könnun á þeim var gerð síðast í september. Ljóst er að almenningur væntir mun meiri verðbólgu eftir ár en forsvarsmenn fyrirtækja.

Oft er talsverður munur á verðbólguvæntingum almennings annars vegar og stjórnenda fyrirtækja hins vegar. Virðist sem verðbólguvæntingar almennings mótist mest af þeirri verðbólgu sem er á þeim tíma sem könnunin er gerð en verðbólguvæntingar stjórnenda fyrirtækja mótast meira af verðbólguspám. Þegar könnunin var gerð var verðbólgan 8,6% en þess má geta að hún var framkvæmd um mánuði áður en könnun á væntingum fyrirtækjastjórnenda.

Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hækkaði einnig á síðustu mánuðum nýliðins árs, en það hefur raunar snarlækkað undanfarnar viku og er nú á svipuðum slóðum og í septemberbyrjun. Álagið til 3ja ára er þannig 3,7% í dag, en það gefur vísbendingu um verðbólguvæntingar skuldabréfafjárfesta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×