Erlent

Danskur fíkniefnahundur fann 100 milljónir í reiðufé

Fíkniefnahundur sem lögreglan í Kaupmannahöfn var að þjálfa fann 5 milljónir danskra króna eða ríflega 100 milljónir króna í reiðufé fyrir tilviljun í farangursrými bíls út á Amager.

Lögreglan var að þjálfa hundinn í vöruhóteli við Laplandsgade á Amager þegar hann fann seðlabúntin í bílskottinu. Þegar lögreglan var að athafna sig við bílinn kom maður keyrandi að honum og var sá gripinn með hálfa milljón danskra króna á sér. Sá situr nú í gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt frétt um málið í Ekstra Bladet átti þessi atburður sér stað í síðasta mánuði en lögreglan hefur haldið honum leyndum í þeirri von að fleiri vitji fjárins.

Lögreglan er ekki í vafa um að féið sem hundurinn fann sé gróði af sölu fíkniefna. Helst er talið að féið komi frá hasssölunni í Kristjaníu sem blómstrar að nýju.

Fram kemur í fréttinni að vöruhótelið er í eigu félags sem rekur nokkur slík í Kaupmannahöfn og víðar. Áður hafa stór fíkniefnamál komið upp á þessum hótelum og má þar nefna að 13 tonnum af hassi var eitt sinn dreift frá slíku hóteli í Ishöj og frá öðu í Herlev var dreift 17 kílóum af kókaíni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×