Viðskipti innlent

Starfsfólk skilanefnda fékk 4,3 milljarða í laun

frá kröfuhafafundi Landsbankans Talverður munur var á launum starfsfólks skilanefnda gömlu bankanna í fyrra og kollega þeirra sem gera upp bú fallinna banka í Bretlandi.
frá kröfuhafafundi Landsbankans Talverður munur var á launum starfsfólks skilanefnda gömlu bankanna í fyrra og kollega þeirra sem gera upp bú fallinna banka í Bretlandi.

Skilanefndir gömlu bankanna greiddu rúma 4,3 milljarða í laun og tengd gjöld á síðasta ári. Launakostnaður var mestur í gamla Landsbankanum, eða 3,4 milljarðar króna. Lægstur var hann í Glitni, eða þrjú hundruð milljónir króna.

Hjá skilanefndum bankanna störfuðu um 260 manns í fyrra. Flestir unnu hjá gamla Landsbankanum eða 143. Um helmingur þeirra, eða sjötíu, var hér á landi en 65 í Bretlandi.

Aðrir voru í Amsterdam í Hollandi og hjá dótturfélagi gamla bankans í Kanada. Fæstir voru hjá Glitni, eða 22 að meðaltali.

Erfitt er að reikna út meðallaun starfsmanna skilanefnda vegna mismunandi utanumhalds. Í sumum tilvikum gefa skilanefndir og aðrir uppgjörsaðilar upp starfsmannafjölda en í öðrum unnar vinnustundir eða meðaltal starfsmanna yfir árið.

Kristján Óskarsson, framkvæmdastjóri Glitnis, segir starfsmannhóp bankans að mestu samsettan af sérfræðingum. Ýmis önnur störf, svo sem bakvinnsla og bókhaldsvinna er unnin af starfsmönnum Íslandsbanka samkvæmt þjónustusamningi.

Páll Benediktsson, talsmaður skilanefndar Landsbankans, segir launakostnað í Bretlandi lita bækur bankans enda séu laun ytra mun hærri en hér. Hann vill ekki gefa upp launatölur en bendir á að kjörin hér séu sambærileg við önnur störf í bankageiranum. Sama máli gegnir um Kaupþing.

Hæstu laun starfsmanna fjármálafyrirtækja samkvæmt launatöflu frá 1. janúar 2009 og er birt á vef Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) hljóða upp á 422.435 krónur á mánuði.

Líkt og fram kom í Fréttablaðinu í gær eru skilanefndirnar sjálfar og slitastjórnir ekki á meðal almennra starfsmanna. Þær teljast til sérfræðinga og falla greiðslur til þeirra í lið með öðrum sérfræðikostnaði í sundurliðun á rekstrarkostnaði við uppgjör bankanna.

Talsmenn allra skilanefnda bankanna benda á að kostnaðurinn hafi verið hár á fyrri hluta árs en úr honum dregið eftir því sem liðið hafi á árið. Gert er ráð fyrir að hann verði lægri á þessu ári.

Sé rekstrarkostnaður skoðaður sem hlutfall af brúttóeignum skilanefnda í stýringu er hann sambærilegur hjá Kaupþingi og Glitni, eða 0,24 til 0,25 prósent. Landsbankinn gefur upplýsingarnar upp að loknum kröfuhafafundi í næstu viku. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×