Viðskipti innlent

Dótturfélag Nýherja semur við danskar ríkisjárnbrautir

Dótturfélag Nýherja, Applicon A/S í Danmörku, hefur gert samning við ríkisjárnbrautirnar þar í landi (DSB) um umfangsmikla SAP ráðgjafarþjónustu er tengist áformum fyrirtækisins um samræmingu og hagræðingu í rekstri samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Samningurinn tekur til uppsetningar á einstökum einingum SAP fjárhagskerfisins fyrir lagerhald, innkaup, viðhaldsþjónustu, framleiðslu, sölu og reikningagerð.

DSB flytur um 168 milljónir farþega á ári og er með 80% af lestarsamgöngumarkaðinum í Danmörku. Um 9.200 manns starfa hjá félaginu.

DSB hyggst breyta skipulagi þjónustueininga fyrirtækisins og aðlaga að framtíðarmarkmiðum félagsins og er Applicon A/S ætlað að taka þátt í þeirri vinnu. Byggt verður á þeim SAP grunnkerfum, sem þegar eru uppsett í fyrirtækinu.

"Verkefnið er þýðingarmikið fyrir Applicon í heild sinni því Applicon starfsmenn frá bæði Danmörku og Íslandi munu koma að verkefninu. Við höfum fundið fyrir aukinni eftirspurn og það lítur út fyrir að markaðurinn sé að taka við sér eftir lægð undanfarin 2 ár," segir Per Falck Jensen framkvæmdastjóri hjá hjá Applicon A/S í Danmörku.

Applicon er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar. Applicon félög Nýherja eru starfrækt í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi og hjá þeim starfa um 170 manns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×