Viðskipti innlent

Hátt í 40 manns bætast á atvinnuleysisskrá daglega

Helga Arnardóttir skrifar

Rúmlega þrjú hundruð manns hafa bæst við á atvinnuleysiskrá frá áramótum og áætlar vinnumálastofnun að hátt í fjörutíu manns bætist á skrána á hverjum virkum degi út janúar mánuð. Um sextán þúsund manns eru á atvinnuleysisbótum í dag.

Alls bárust Vinnumálastofnun tilkynningar um uppsagnir tæplega átján hundruð manns í hópuppsögnum í fyrra. Mestur var fjöldinn í mannvirkjagerð og fjármálastarfsemi en einnig í iðnaði og flutningastarfsemi. Þær hópuppsagnir sem tilkynntar voru á árinu 2009 hafa flestar komið til framkvæmda nú þegar, flestir sem hópuppsagnirnar náðu til misstu vinnuna í ágúst eða um 370 manns og um 250 manns í september. Nálægt 200 manns munu svo missa vinnuna í febrúar.

Karl Sigurðsson forstöðumaður vinnumálasviðs segir að rúmlega þrjú hundruð manns hafi bæst við á atvinnuleysisskrá frá áramótum og áætlar að hátt í fjörutíu á dag bætist við skrána á hverjum virkum degi út janúar mánuð. Skýringin sé sú að margar uppsagnir taka gildi núna auk nokkurra gjaldþrota. Reynslan sýni hins vegar að það hægist á nýskráningum í febrúar.

Nú mælist atvinnuleysi um átta og hálft prósent en mest var það í apríl í fyrra eða 9,1 % þegar tæplega sautján þúsund manns voru atvinnulausir. Karl segist þó gera ráð fyrir að atvinnuleysi fari um eða yfir 10% í febrúar og mars. Verði það að veruleika er það mesta atvinnuleysi sem mælst hefur hér á landi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×