Erlent

David Cameron gaf Obama graffitiverk

Obama og Cameron hittust og funduðu á skrifstofu Obama í Hvíta húsinu í gær.
Obama og Cameron hittust og funduðu á skrifstofu Obama í Hvíta húsinu í gær.
Ein af gjöfum forsætisráðherra Breta til forseta Bandaríkjanna er málverk eftir graffitilistamann. Cameron er staddur í opinberri heimsókn í Washington og fer vel á með honum og Obama.

Graffitiverkið heitir 21st Century City og er eftir listamanninn Ben Eine. Hann er sagður vera einn uppáhaldslistamaður Samönthu, eiginkonu Cameron.

„Þetta var nú skrýtinn dagur. David Cameron gaf Obama verk eftir mig í listaverkabýttum," skrifaði Eine á heimasíðu sína en Obama gaf Cameron verk á móti eftir popplistamanninn Ed Ruscha.

Cameron gaf Obama einnig bleik og fjólublá Wellington-stígvél fyrir dætur hans og Michelle Obama fékk ilmkerti frá breska ilmvatnsframleiðandanum Miller Harris.

Verkið umrædda sem Cameron gaf Obama.
Börn Cameron fengu á móti silfurhálsfesti og fótboltatreyju. Samantha Cameron fékk gjafakörfu þar sem meðal annars var að finna teppi fyrir ungabarn en hún á von á sér í haust.

Obama virðist hafa tekið sig á í gjafadeildinni en hann var gagnrýndur fyrir að hafa gefið Gordon Brown lélega gjöf þegar hann kom til Washington fyrir nokkrum árum. Þá gaf Obama forsætisráðherranum DVD-sett með klassískum bíómyndum en fékk á móti pennastand úr timbri af freigátu sem elti uppi þrælaskip á Viktoríutímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×