Viðskipti innlent

Hugbúnaður flokki lög eftir innihaldi

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. Mynd/GVA
Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og D3, sem rekur tónlistarvefinn tonlist.is, hafa gert með sér samstarfssamning um rannsóknir á flokkun laga eftir innihaldi þeirra.

Umrætt rannsóknarverkefni snýst um að beita þessum leitaraðferðum við flokkun á tónlist, til að auðvelda notendum leit eftir efnisflokkum þegar þeir eru að skoða tónlistarsafnið, að fram kemur í tilkynningu frá HR.

Rannsóknarverkefnið, sem styrkt hefur verið af Þróunarsjóði Háskólans í Reykjavík, verður unnið af Hauki Pálmasyni, meistaranema í tölvunarfræði í HR, undir umsjón dr. Björns Þórs Jónssonar, dósents við tölvunarfræðideild HR. Björn Þór hefur á undanförnum árum stundað rannsóknir á hraðvirkri leit í stórum margmiðlunargagnagrunnum, svo sem í myndagrunnum, myndbandagrunnum og nú síðast í tónlistargrunnum.

Í tilkynningunni segir að samningurinn marki tímamót þar sem vísindamenn HR fá aðgang að allri íslenskri tónlist á tónlist.is eða meira en 50 þúsund lögum. Gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga verkefnisins ljúki um næstu áramót.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×