Skoðun

Umburðarlyndi og bókstafstrú

Ásgrímur Angantýsson, málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins, flutti pistil í Víðsjá um daginn, þar sem hann gagnrýndi þá sem stundum eru kallaðir málvöndunarmenn og sagði hugsunarhátt þeirra staðnaðan. Svo mikið lá við að koma afturhaldsorði á okkur sem viljum teljast til þess hóps að pistillinn var birtur sem grein í Fréttablaðinu daginn eftir.

Lengi hafa íslenskufræðingar af yngri kynslóðunum amast við hvers konar athugasemdum við málfar og talið „málvillur“ einungis dæmi um „lifandi þróun málsins“. Slík sjónarmið eru engin nýlunda en vont þykir mér að þau skuli nú hafa tekið völdin á Ríkisútvarpinu.

Ráðunautnum verður raunar allmjög á í upphafi greinar sinnar þegar hann telur að þátturinn Daglegt mál í Ríkisútvarpinu sé „enn á svipuðum nótum og þegar hann hóf göngu sína fyrir rúmlega hálfri öld.“ Hann áttar sig ekki á því, líklega sökum ungs aldurs, að allmörg ár eru síðan þessi þáttur var lagður niður. Fyrir örfáum árum tók Hanna G. Sigurðardóttir hins vegar upp á því að fá Aðalstein Davíðsson, fyrrverandi málfarsráðunaut RÚV, til vikulegs spjalls í fáeinar mínútur um ýmis málfarsleg atriði sem Hanna telur ýmist til lýta eða fyrirmyndar og hún vekur oftast máls á sjálf. Þetta er yfirleitt skemmtilegt spjall því Aðalsteinn er fróður um málsögu og býsna smekklegur og bæði eru vel máli farin. Gömlu þættirnir voru með allt öðru sniði – en sýndu hins vegar lifandi áhuga þjóðarinnar á tungumálinu. Óskiljanlegar vangavelturMálfarsráðunauturinn gagnrýnir svo Eið Guðnason, sem bloggar m.a. mikið um ambögur í daglegu máli, og félaga á síðu Málræktarklúbbsins á netinu, sem eru iðnir við að benda á það sem miður fer, fyrir að endurtaka í sífellu sömu atriðin. Mér finnst nú ekki veita af að endurtaka gagnrýnina sífellt. Dæmi þau sem ráðunauturinn nefnir í pistli sínum til marks um „bókstafstrú“ málræktarfólks kannast ég hins vegar hreint ekki við að hafi verið í umræðunni. Honum hefði verið nær að taka dæmi frá Eiði ellegar af síðu Málræktarklúbbsins.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki allar vangaveltur ráðunautarins, meðal annars um „hvaða fyrirbæri eru óvinsæl í málsamfélaginu“ og undarleg þykir mér sú fullyrðing að þegar bent er á ambögur og klúðurslegt málfar beinist athyglin „fyrst og fremst að því neikvæða“! Málflækjustíll fréttamannaRáðunauturinn telur að aðalatriðið sé að „varðveita íslenskt málkerfi í megindráttum og efla málnotkun á sem flestum sviðum“. Þetta er náttúrlega hárrétt. En hvar vill hann draga mörkin milli „bókstafstrúar“ og þess? Það er einnig rétt að þeir sem flytja mál sitt opinberlega þurfa að geta gert það skýrt og áheyrilega. Þetta á ekki síst við um starfsmenn Ríkisútvarpsins en ég heyri ekki betur en að á síðustu misserum hafi málfari þeirra hrakað verulega og mér finnst að ráðunauturinn ætti að snúa sér að því að greiða úr málflækjustíl fréttamannanna ungu og sífelldum endurtekningum, sem gerir oft að verkum að fréttir verða illskiljanlegar, fremur en saka okkur, sem látum okkur móðurmál okkar varða, um að „predika málfarslega bókstafstrú [og taka] sjaldnast mið af samhengi eða aðstæðum“. Ég vil frábiðja mér slíkan rakalausan þvætting.

Í nafni jákvæðni skal þó tekið fram að RÚV hefur á að skipa mörgu snjöllu og vel máli förnu fólki.

Okkur á ekki að standa á sama um hvernig farið er með tungumálið á fjölmiðli eins og RÚV. Á öllum sambærilegum stofnunum í nágrannalöndum okkar gilda ákveðnar reglur um málfar en að sjálfsögðu er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvaða málsnið þeir nota í daglegu lífi. Málfarsráðunautur RÚV á að fylgjast með því að almennum reglum um málfar sé fylgt, m.ö.o. lesa prófarkir, og skóla unga fréttamenn til. Vísindalegar ritgerðir eru góðar út af fyrir sig en koma að takmörkuðu gagni í erli fréttamennskunnar.



Skoðun

Sjá meira


×