Erlent

Öskubakkar komnir aftur á gríska bari og veitingastaði

Öskubakkarnir eru komnir aftur á gríska bari og veitingastaði aðeins tæpum tveimur mánuðum eftir að sett var reykingabann á þessa staði í Grikklandi.

Tóbaksnotkun í Grikklandi er sú mesta af öllum Evrópulöndunum. Grískir veitingamenn og bareigendur segja að þeir hafi neyðst til þess að hundsa bann stjórnvalda við reykingum á stöðum sínum því annars hefðu þeir allir orðið gjaldþrota.

Í frétt um málið í Politiken segir að samtök veitingahúsa í Grikklandi sé farin í herferð gegn reyklingabanninu undir slagorðinu "Öskubakkana aftur."

Yiannis Tsakos talsmaður samtakanna segir að reykingabannið hafi verið tómt bull. Hann spyr afhverju leyft sé að framleiða og selja tóbak ef það er svona skaðlegt heilsu manna.

Hingað til eru yfir 150 veitingahús og barir orðnir þátttakendur í herferðinni og hafa sett öskubakkana aftur á borð sín.

Fram kemur í fréttinni að grískir veitingastaðir hafa tapað 30 til 50% af veltu sinni vegna kreppunnar en reykingarbannið hafi síðan gert það að verkum að veltutapið sé orðið 80%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×