Viðskipti innlent

Greining: Verðbólgan tæp 10% næstu þrjá mánuði

Greining Arion banka spáir því að ársverðbólgan muni nema tæpum 10% næstu þrjá mánuði. Gerir spáin ráð fyrir að vísitala neysluverðs muni hækka um 2,4% á tímabilinu. Í janúar gerir greiningin ráð fyrir að vísitalan hækki um 1,2% þrátt fyrir útsölur.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að Þótt janúarmánuður sé útsölumánuður mun verðlag engu að síður hækka ríflega í mánuðinum vegna hækkana á sköttum og opinberum gjöldum.

Óvissan um verðþróunina í janúar er meiri en venjulega, t.d. vegna þess að erfitt er að sjá fyrir hve hratt vsk-hækkanir skila sér út í verðlag. Ennfremur liggur ekki fyrir að hve miklu leyti uppsöfnuð hækkunarþörf fær að fljóta út í verðlag nú þegar kaupmenn breyta verðum samhliða hækkun vsk-prósentu.

„Þessa óvissuþætti skal hafa til hliðsjónar þegar spá okkar um 1,2% hækkun verðlags í janúar er vegin og metin. Ennfremur mun Greiningardeild birta uppfærða spá um miðjan mánuðinn þegar verðþróunin liggur fyrir með skýrari hætti," segir í Markaðspunktunum

„Eitthvað mun eima eftir af áhrifum skatta- og gjaldskrárhækkana í febrúar og jafnvel mars einnig. Því mun verðbólga vera tiltölulega há a.m.k. næstu tvo mánuði. Samkvæmt verðbólguspá okkar hækkar verðlag um 2,4% næstu þrjá mánuði eða sem jafngildir tæplega 10% verðbólgu á ársgrundvelli. Nokkuð hægir hinsvegar á verðbólgunni horft til 6 mánaða ef gengi krónunnar helst áfram stöðugt. Vissulega þarf þó að hafa í huga aukna óvissu varðandi íslenska efnahagsþróun sem gæti raskað forsendum spárinnar, t.d. horft til 6 mánaða."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×