Viðskipti innlent

Samband íslenskra sparisjóða segir óvissu lokið

Viðskiptavinir munu ekki verða fyrir neinum óþægindum vegna þessara breytinga, því starfsemin heldur áfram í óbreyttri mynd, innlán eru örugg, útibú opin og sama starfsfólk þjónar viðskiptavinum.
Viðskiptavinir munu ekki verða fyrir neinum óþægindum vegna þessara breytinga, því starfsemin heldur áfram í óbreyttri mynd, innlán eru örugg, útibú opin og sama starfsfólk þjónar viðskiptavinum.
„Með þessum atburðum lýkur þeirri óvissu sem hefur ríkt um einstaka sparisjóði og sparisjóðanetið alveg frá bankahruninu í október 2008," segir í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sparisjóða um fréttirnar af Byr og Spkef.

Tilkynningin hljóðar svo: „Fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðanna hefur verið í vinnslu um langt skeið í góðu samstarfi við ríkisstjórn, ráðuneyti, Fjármálaeftirlit og Seðlabanka. Tveir sparisjóðir, Byr-sparisjóður og Sparisjóðurinn í Keflavík hafa jafnframt verið í erfiðum samningum við erlenda lánardrottna sína.

Nú er ljóst að hinir erlendu lánardrottnar samþykkja ekki þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að þessir tveir sparisjóðir verði starfhæfir. Þess vegna ákváðu stjórnir þeirra að skila starfsleyfi sínu í gær og óskuðu eftir því að FME tæki yfir stjórn sjóðanna. FME hefur þegar skipað bráðabrigðastjórn sem hefur tekið yfir stjórn Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík. Aðgerðin er sambærileg við það þegar gömlu viðskiptabankarnir þrír voru teknir yfir af ríkinu í október 2008.

Viðskiptavinir munu ekki verða fyrir neinum óþægindum vegna þessara breytinga, því starfsemin heldur áfram í óbreyttri mynd, innlán eru örugg, útibú opin og sama starfsfólk þjónar viðskiptavinum.

Aðrir sparisjóðir hafa þegar náð samkomulagi um sín mál og stefna að því að ljúka öllum formsatriðum vegna þess á næstu vikum. Starfsemi þeirra er tryggð og viðskiptavinir geta verið ánægðir með sinn sparisjóð hér eftir sem hingað til.

Með þessum atburðum lýkur þeirri óvissu sem hefur ríkt um einstaka sparisjóði og sparisjóðanetið alveg frá bankahruninu í október 2008. Nú er ljóst að sparisjóðir munu áfram verða lykilaðilar í að tryggja aðgengi allra landsmanna að góðri fjármálaþjónustu með hagsmuni síns samfélags og sinna viðskiptavina að leiðarljósi."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×