Viðskipti innlent

Nífalt fleiri ökutæki nýskráð 2005 en á þessu ári

Sá mikli samdráttur sem verið hefur í nýskráningu ökutækja heldur áfram það sem af er árinu 2010 samkvæmt tölum Umferðarstofu. Gríðarlegur munur, eða nífaldur, er á fjölda nýskráðra ökutækja í byrjun þessa árs borið saman við sama tímabil árið 2005 þegar fjöldi nýskráninga náði hámarki.

Í tilkynningu segir að tekið skal fram að hér er um að ræða allar tegundir skráðra ökutækja. Frá 1. janúar til 15. febrúar hafa 316 ökutæki verið nýskráð en þau voru 444 á sama tímabili í fyrra. Fækkunin nemur rétt tæplega 29 prósentum.

Ef þessar tölur eru bornar saman við fyrstu 46 daga ársins 2005, en það ár var mesti fjöldi nýskráninga, kemur í ljós að þá voru skráð 2.937 ökutæki u.þ.b níu sinnum fleiri en það sem af er árinu 2010. Nú er fjöldi nýskráninga aðeins tæp 11% þess fjölda sem skráður í upphafi árs 2005.

Sama á við um eigendaskipti ökutækja en það sem af er árinu hafa verið skráð 6861 eigendaskipti en í fyrra voru þau 9247. Þetta er 26% fækkun eigendaskipta. Árið 2005 voru skráð 13.209 eigendaskipti á sama tímabili eða nærri tvöfalt fleiri en núna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×