Lífið

Frímann skiptir um stöð

Frímann Gunnnarsson og könnun hans á skandinavískum húmor verður á Stöð 2 í stað RÚV. Hér er Frímann ásamt Frank Hvam, Klovn-stjörnunni frægu.
Frímann Gunnnarsson og könnun hans á skandinavískum húmor verður á Stöð 2 í stað RÚV. Hér er Frímann ásamt Frank Hvam, Klovn-stjörnunni frægu.
Frímann Gunnarsson og ferðalag hans um húmorinn á Norðurlöndunum og Bretlandi verður á Stöð 2 í stað RÚV. Þetta staðfestir skapari Frímanns, Gunnar Hansson. Eins og Fréttablaðið greindi frá stóð fyrst til að þættirnir yrðu á RÚV en að sögn Gunnars skildi leiðir vegna fjármögnunar verkefnisins.

„Við vorum bara kallaðir á fund upp í Efstaleiti og sagt að þetta gengi ekki upp. Frímann hefði sagt að sá fundur hefði verið eins og blaut tuska í andlitið,“ útskýrir Gunnar og vill sem minnst tjá sig um sambandsslitin. Þau hafi þó komið á slæmum tíma fyrir framleiðsluna enda voru þeir komnir á fullt í tökum. „En þetta er svo skemmtilegur bolti þessi bransi og við erum ákaflega fegnir að Stöð 2 skyldi grípa hann á lofti,“ segir leikarinn en hann gerir þættina ásamt bróður sínum, Ragnari Hanssyni.

Gunnar kveðst vera ákaflega sáttur með vistaskiptin, hann hafi skynjað það á fyrstu fundum sínum með forsvarsmönnum stöðvarinnar að þeir væru að tala sama tungumál. Þættirnir verða að öllum líkindum á dagskrá Stöðvar 2 strax í haust en Gunnar og Ragnar eru á leiðinni til London til að taka upp þátt með breska uppistandaranum Matt Berry. Bretinn er síður en svo eina stórstjarnan sem kemur fram í þáttunum því meðal viðmælenda eru Klovn-stjarnan Frank Hvam og Jón Gnarr auk fulltrúa frá hinum Norðurlöndunum.

Danska ríkissjónvarpið, DR 2, hefur þegar keypt sýningarréttinn að þáttunum og Gunnar upplýsir að þeir séu í viðræðum við finnska sjónvarpsstöð. „Við ætlum að bíða með samningaviðræður við sænska sjónvarpið og það norska þar til við höfum meira myndefni til að sýna þeim.“- fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.