Erlent

Tugir manna myrtir sunnan landamæra

gudsteinn@frettabladid.is skrifar
Vopnabúr glæpamannanna Eftir skotbardagann á búgarðinum lagði herinn hald á fjöldann allan af vopnum.
Vopnabúr glæpamannanna Eftir skotbardagann á búgarðinum lagði herinn hald á fjöldann allan af vopnum. Fréttablaðið/AP

Lík 72 manna fundust á búgarði í Tamaulipas-héraði í Mexíkó, rétt sunnan landamæra Bandaríkjanna á þriðjudaginn. Fullvíst þykir að hinir látnu hafi verið innflytjendur frá Mið- og Suður-Ameríkuríkjum, sem hafi ætlað sér að komast norður yfir.

Mexíkóskur eiturlyfjahringur er grunaður um að hafa myrt fólkið.

Einn maður frá Ekvador lifði af hildarleikinn og gat komist við illan leik að landamærastöð á þjóðveginum og látið þar vita um atburðina. Hermenn héldu þegar á staðinn og fundu þar í húsi hóp vopnaðra manna úr eiturlyfjahringnum.

Til bardaga kom og féll einn hermaður og þrír úr gengi morðingjanna. Í rými þar á bak við fundust lík 58 karlmanna og fjórtán kvenna.

Teresa Delagadillo, starfskona á heimili fyrir flóttamenn í landamærabænum Matamaros, Mexíkómegin landamæranna, segist oft hafa heyrt sögur um að glæpagengi hafi rænt fólki og misþyrmt því til þess að fá út úr því fé. Aldrei hafi hún þó heyrt af neinu jafn hryllilegu og þessum fjöldamorðum nú í vikunni.

Atburðurinn vekur athygli á erfiðu hlutskipti fólks sem reynir að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna frá ríkjum Suður- og Mið-Ameríku.

Æ fleiri fréttir hafa borist af því að hópum þeirra hafi verið rænt. Fólkið sé síðan þvingað til þess að gefa upp símanúmer hjá ættingjum sínum, annaðhvort í Bandaríkjunum eða í heimalandinu. Ættingjarnir eru síðan krafðir um peninga í skiptum fyrir fólkið, sem haldið er föngnu þangað til peningar berast.

Í skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International frá í apríl segir að ferðaleið þessara innflytjenda í gegnum Mexíkó til Bandaríkjanna sé ein sú hættulegasta í heimi.

Mexíkóstjórn hefur staðfest í það minnsta sjö dæmi um hópmannrán af þessu tagi það sem af er þessu ári. Í öllum tilvikum voru það glæpahringir sem stóðu að mannránunum.

Mannréttindastofnunin í Mexíkó segist hafa upplýsingar um að í hverjum einasta mánuði sé 1.600 manns rænt með þessum hætti, og eru þessar tölur byggðar á frásögnum sem stofnuninni bárust á tímabilinu september 2008 til febrúar 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×