Viðskipti innlent

Afar lítill áhugi erlendra aðila á ríkisbréfum í apríl

Svo virðist sem áhugi erlendra aðila á ríkisbréfum hafi verið afar lítill í apríl síðastliðnum. Samkvæmt Markaðsupplýsingum sem Lánamál sendu frá sér í gær keyptu erlendir aðilar ekkert í þeim ríkisbréfaflokkum sem í boði voru í apríl, þ.e. RIKB11 og nýja verðtryggða flokknum RIKS21 sem hleypt var af stokkunum í mánuðinum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka en þar segir að þetta komi greiningunni nokkuð á óvart hvað RIKB11 varðar þar sem óðum styttist í að binditími flokksins fari undir þau eins árs mörk sem margir erlendir aðilar taka mið af, auk þess sem að þeir áttu um 73 milljarða kr. í ríkisbréfaflokknum sem var á gjalddaga í mars síðastliðnum.

Í lok mars áttu erlendir aðilar rétt rúmlega helming allra bréfa í RIKB11 og er ljóst að hlutdeild þeirra í flokknum hefur minnkað nokkuð eftir útboð ríkisbréfa í apríl. Í lok apríl var heildarfjárhæð útistandandi bréfa í RIKB11 39,5 milljarðar kr. að nafnverði og eftir útboðið sem haldið var á flokknum síðastliðinn föstudag er hann orðinn rúmlega 50 milljarðar kr. að stærð.

Eins og svo oft áður voru erlendir aðilar umsvifamiklir í aprílútboði ríkisvíxla. Keyptu þeir víxla fyrir 15,2 milljarða kr. að nafnverði í útboðinu, en alls voru þá seldir víxlar fyrir 20 milljarða kr. Í lok mars voru útistandandi ríkisvíxlar fyrir rúma 77,8 milljarða kr. og nam eignarhlutdeild erlendra aðila rúmum 67%.

Á gjalddaga í apríl voru 21,4 milljarðar kr. af ríkisvíxlum en upphaflega höfðu erlendir aðilar keypt tæp 68% af seldum bréfum í þeim flokki. Má því ætla að eignarhlutdeild þeirra af útistandandi ríkisvíxlum hafi aukist nokkuð í mánuðinum og sé komin í ríflega 69%. Eftir útboðið í apríl minnkaði heildarstabbi útistandandi ríkisvíxla lítillega og nam 76,6 milljörðum kr. í lok mánaðarins.

Í lok mars áttu erlendir aðilar um 192,5 milljarða kr. að nafnverði í ríkisbréfum og -víxlum sem samsvarar til 49% af útistandandi bréfum af þessari gerð. Eignarhlutdeild þeirra í víxlum var þá 67% en í ríkisbréfum rúm 44%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×