Erlent

Flugfreyja stal frá sofandi farþegum

Óli Tynes skrifar
Flugfreyjan fingralanga starfaði hjá Air France.
Flugfreyjan fingralanga starfaði hjá Air France.

Flugfreyja hjá Air France á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi fyrir að stela tugmilljóna króna verðmætum frá sofandi farþegum.

Flugfreyjan sem er fjörutíu og sjö ára gömul hefur ekki verið nafngreind. Vegna starfsreynslu var hún á viðskiptafarrými þar sem farþegar eru yfirleitt vel stæðir.

Hún lét yfirleitt til skarar skríða í löngum næturferðum til Asíu þar sem farþegarnir sofnuðu yfirleitt eftir góða máltíð og nokkur vínglös.

Þegar Air France fóru að berast óvenju margar kvartanir yfir horfnu fé og verðmætum munum var málið rannsakað.

Fljótlega kom í ljós að kvartanirnar bárust eingöngu úr ferðum þar sem freyjan fingralanga hafði þjónað um borð. Hún var svo handtekin síðastliðinn föstudag og játaði brot sín.

Samstarfsfólk hennar hafði raunar furðað sig dálítið á því hversu vel hún lifði. Hún ók um á rándýrum sportbíl og átti íbúðir vítt og breitt um heiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×