Leikjavísir

PS3 leikjatölvan hökkuð

Bandaríski tölvuþrjóturinn George Hotz, sem var frægur sem unglingur þegar hann hakkaði iPhone símann frá Apple, segist hafa leikið sama leikinn á PlayStation 3 leikjatölvuna vinsælu.

Hotz segir að það hafi tekið hann fimm vikur að hakka tölvuna en það gerir fólki kleift að spila sjóræningjaútgáfur af tölvuleikjunum á PS3. Hingað til hefur tölvan verið sú eina sem tölvuþrjótum hefur ekki tekist að hakka og það þrátt fyrir að hún hafi verið á markaði í þrjú ár.

Hotz segir í samtali við BBC að hann muni skýra frá aðferðinni í smáatriðum á Netinu innan skamms. Talsmenn Sony segjast vera að kanna hvað hæft sé í fullyrðingum mannsins en að öðru leyti vilja menn þar á bæ ekki tjá sig nánar.

Auk þess að gera fólki kleift að spila sjóræningjaútgáfur af PS3 leikjum segir Hotz að nú geti menn einnig spilað PlayStation 2 leiki á tölvunni, en Sony ákvað að koma í veg fyrir þann möguleika þegar PS3 kom út, mörgum til lítillar gleði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×