Viðskipti innlent

Ákvörðun um framtíð Haga gæti dregist í nokkra mánuði

Sigríður Mogensen skrifar
Svo gæti farið að ákvörðun um framtíð Haga muni jafnvel dragast um nokkra mánuði. Engar ákvarðanir voru teknar um málefni Haga á stjórnarfundi Arion banka í gærdag.

Hagar, sem reka meðal annars verslanirnar Hagkaup, Bónus og 10-11 voru í eigu eignarhaldsfélagsins 1998, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu. Árið 2008 fékk eignarhaldsfélagið rúmar 260 milljónir evra að láni hjá Kaupþingi til að kaupa Haga út úr Baugi. Á gengi dagsins í dag er sú skuld á bilinu 40-50 milljarðar króna.

Kaupþing, nú Arion banki, tók yfir eignarhaldsfélagið fyrir skömmu og þar með 96% hlut í Högum. Feðgarnir Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson ásamt erlendum fjárfestum reyna nú að eignast Haga á nýjan leik og hafa gert Arion banka tilboð um fjárhagslega endurskipulagningu verslunarfyrirtækisins.

Stjórn bankans fundaði í gær en samkvæmt heimildum fréttastofu voru engar ákvarðanir teknar um framtíð Haga, né afstaða tekin til tilboðs Jóns Ásgeirs og félaga.

Starfsmenn fyrirtækjasviðs Arion banka og aðrir sérfræðingar hafa vegið og metið tilboðið með hliðsjón af stöðu Haga og áætluðu verðmæti. Ólíklegt er að málið verði leitt til lykta á næstu dögum og gæti ákvörðun um framtíð Haga jafnvel dregist í nokkra mánuði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×