Enski boltinn

Ancelotti: Terry verður með Chelsea á móti Everton á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry verður áfram með fyrirliðabandið hjá Chelsea.
John Terry verður áfram með fyrirliðabandið hjá Chelsea. Mynd/AFP
John Terry hefur náð sér af meiðslunum sem hann varð fyrir í sigrinum á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn og mun því spila leikinn á móti Everton á morgun. Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, ætlar ekki að nota meiðslin til þess að hvíla fyrirliðann sinn sem hefur staðið í ströngu að undanförnu.

„Hann mun spila leikinn. Hann lenti í smá vandræðum með fótinn sinn en hann hefur náð sér vel og spilar á morgun," sagði Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea í viðtali við ítalska blaðið La Republica.

Ancelotti sagði í viðtalinu að það hefði verið rétt ákvörðun hjá sér að láta John Terry halda fyrirliðabandinu hjá Chelsea en Terry missti fyrirliðabandið hjá enska landsliðinu eftir að upp komst um framhjáhald hans.

„Terry hefur haldið fyrirliðabandinu af því að það er ekki mitt starf að fylgjast með persónulegu lífi leikmanna ef að það hefur ekki áhrif á frammistöðu þeirra inn á vellinum. Hann er að mínu mati frábær fyrirliði, mikill fagmaður, leiðtogi og leikmaður sem hefur mjög sterka tengingu til klúbbsins þar sem hann kom upp í gegnum unglingastarf félagsins," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×