Erlent

Evruhagkerfið sagt komið fyrir horn

Stýrivextir verða ekki hækkaðir á evrusvæðinu á allra næstu mánuðum þótt betur ári í efnahagslífinu, segir  Trichet.Fréttablaðið/AP
Stýrivextir verða ekki hækkaðir á evrusvæðinu á allra næstu mánuðum þótt betur ári í efnahagslífinu, segir Trichet.Fréttablaðið/AP
Efnahagsbatinn á evrusvæðinu var snarpari á þriðja ársfjórðungi en áætlanir gerðu ráð fyrir og stöðugleiki að færast yfir. Aðstæður eru að skapast til að draga úr aðstoð við fjármálafyrirtæki á efnahagssvæðinu.

Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Jean-Claude Trichet, aðalbankastjóra evrópska seðlabankans, á blaðamannafundi í Frankfurt í Þýskalandi í gær þegar hann tilkynnti um ákvörðun bankastjórnarinnar að halda stýrivöxtum á evrusvæðinu óbreyttum í 1,0 prósenti. Vextirnir hafa staðið óbreyttir frá því í maí í fyrra og hafa aldrei verið lægri. Hann telur þó ekki ástæðu til að hækka vexti á ný á allra næstu mánuðum.

Fjármálasérfræðingar taka undir orð seðlabankastjórans í samtali við Bloomberg-fréttaveituna í gær. Þá telja þeir verstu hremmingarnar yfirstaðnar á efnahagssvæðinu og vísa til þess að gengi evrunnar hefur styrkst um tíu prósent gagnvart bandaríkjadal síðastliðna tvo mánuði, evrópska hlutabréfavísitalan Stoxx 600 hækkað um ellefu prósent á einum mánuði og álag á ruslbréf lækkað verulega. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×