Erlent

Fjöldi fylgdist með almyrkva á sólu á Páskaeyjunni

Eitt af sjaldgæfari náttúrufyrirbrigðum heimsins olli þvi að íbúatalan á hinni dularfullu Páskaeyju tvöfaldaðist um helgina.

Um var að ræða almyrkva á sólu og eini staðurinn á landi sem hægt var að fylgjast með honum var á litlu afmörkuðu svæði á eyjunni. Samkvæmt frásögn BBC af atburðinum fylgdust um 8.000 manns með almyrkvanum en hann skall á skömmu eftir klukkan átta í gærkveldi að okkar tíma og stóð yfir í rétt tæpar fimm mínútur.

Um tíma var útlit fyrir að þeir sem komnir voru til Páskaeyju myndu missa af þessu náttúrufyrirbirgði því skýjað var megnið af sunnudeginum á eyjunni. En skömmu áður en myrkvinn hófst létti til þannig að hann sást greinilega.

Viðstaddir fögnuðu ákaflega þegar myrkvinn stóð sem hæst en einn viðstaddra lýsti þessu eins og að vera staddur í dimmu herbergi þar sem aðeins týrði á 10 watta peru.

Almyrkvi á sólu myndast þegar tunglið svífur á milli sólar og jarðar og skyggir þar með á sólina. Páskaeyjan liggur djúpt undan ströndum Chile í Kyrrahafinu og er þekktust fyrir dularfullar 3.000 ára gamlar Moai steinstyttur sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×