Erlent

Friðarferlið hafið að nýju

Barack Obama mætir til kvöldverðar ásamt Abbas, Netanyahu, Mubarak og Jórdaníukonungi.
Barack Obama mætir til kvöldverðar ásamt Abbas, Netanyahu, Mubarak og Jórdaníukonungi.

Beinar friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna eru hafnar eftir tveggja ára hlé. Viðræðurnar fara fram í Washington höfuðborg Bandaríkjanna og í gærkvöldi bauð Barack Obama forseti til kvöldverðar í Hvíta húsinu.

Þar sátu saman til borðs þeir Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels og forseti Palestínu Mahmoud Abbas. Konungur Jórdaníu og forseti Egyptalands mættu einnig til kvöldverðarins en þeir munu einnig taka þátt í viðræðunum sem flestir eru hóflega bjartsýnir á að eigi eftir að skila miklu.

Tuttugu mánuði hefur tekið að koma deiluaðilum að samningaborðinu og það hjálpar ekki til að Hamas samtökin hafa nú tvívegis á stuttum tíma gert árásir á Ísraelska landnema á Vesturbakkanum og drepið að minnsta kosti fjóra.

Þá hafa Ísraelsmenn þegar gefið til kynna að ólíklegt sé að þeir haldi áfram að draga úr útþennslu landnemabyggða en Palestínumenn segjast ekki geta haldið viðræðum áfram nema slíkt loforð komi frá Ísrael og hefur Abbas forseti skorað á Netanyahu að stöðva með öllu byggingu landnemaþorpa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×