Viðskipti innlent

Skattleysismörk nánast þau sömu á næsta ári

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Skattleysismörk verða nánast þau sömu á næsta ári og því sem er senn á enda, þrátt fyrir að öll sveitarfélögin hækki útsvarið. Mörkin eru tæplega 124 þúsund krónur á mánuði.

Mörkin milli skattþrepa munu taka breytingum í upphafi árs í hlutfalli við hækkun launavísitölu síðustu tólf mánaða. Hækkun launavísitölunnar síðasta árið er 4,7%. Tekjuskattur verður lagður á í þremur þrepum eins og áður.

Þeir sem eru með tæplega 210 þúsund krónur á mánuði greiða 22,9% skatt, þeir sem eru með rúmlega 471 þúsund krónur greiða 25,8% skatt og í þriðja þrepi greiða þeir sem eru með meira en 680 þúsund 31,8% skatt.

Á nýju ári verður meðalútsvarshlutfall sveitarfélaga 14,41% í stað 13,12% á árinu sem er að líða. 66 af 76 sveitarfélögum ætla að leggja á hámarksútsvar en öll sveitarfélög hækka útsvarshlutfallið frá þessu ári vegna tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Fólk í fyrsta skattþrepi greiðir því rúmlega 37% skatt, rúmlega 40% í öðru þrepi og rúmlega 46% í því þriðja.

Persónuafsláttur hvers einstaklings verður óbreyttur eða rúmar 44 þúsund krónur á mánuði. Skattleysismörk, sem eru tæplega 124 þ.kr. á mánuði á árinu 2010 verða nánast þau sömu á mánuði frá og með 1. janúar 2011. Lækkunin er tæplega þrjúhundruð krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×