Viðskipti innlent

Glitnir gæti tapað sex milljörðum á Skeljungi

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Útlit er fyrir er að Glitnir tapi á endanum rúmlega sex milljörðum þar sem bankinn ábyrgðist sölu Fons, eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar, á hlutabréfum í Skeljungi níu mánuðum fyrir bankahrunið.

Fons, félag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, keypti rúmlega 6 prósenta hlut í FL Group í desember 2007 á tíu milljarða króna og fékk allt kaupverðið að láni hjá Glitni gegn veði í bréfunum sjálfum. Pálmi hefur nú upplýst að hann hafi keypt þessi hlutabréf því að í staðinn hafi hann fengið 8,7 milljarða króna sölutryggingu hjá Glitni banka fyrir hlut sinn í Skeljungi. Þetta þýddi að bankinn ábyrgðist að hlutur Pálma í Skeljungi yrði aldrei seldur fyrir minna en 8,7 milljarða.

Í desember 2007 voru vaxtaberandi skuldir Skeljungs um átta milljarðar króna, en tíu milljarðar samkvæmt ársreikningi og eigið fé aðeins 2,2 milljarðar. Aðeins hálfu ári síðar var helmingur þess hlutafjár í Skeljungi sem Glitnir sölutryggði seldur á einn og hálfan milljarð króna.

Pálmi segist hafa setið uppi með svarta pétur vegna þessara viðskipta því bréfin í FL Group reyndust verðlítil. Þá var andvirði sölutryggingarinnar notað til að greiða niður lánið sem hann fékk hjá Glitni, en enn eru útistandandi rúmlega þrír milljarðar króna sem er hluti af 23 milljarða samtölu krafna Glitnis á Fons.

Nú stendur yfir söluferli á þeim 49 prósentum í Skeljungi sem enn eru í eigu Íslandsbanka. Óvíst er hvað bankinn fær fyrir hlutinn, en ef kaupverðið verður hálfur milljarðar króna sem er ekki óvarlega áætlað, þá verður tap bankans vegna sölutryggingarinnar á Skeljungi rúmlega sex milljarðar króna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×